Yakitori – Japönsk kjúklingaspjót

Yakitori er gríðarlega vinsæll japanskur “street food” réttur. Í Japan er að finna ótal veitingastaði sem matreiða einungis Yakitori og ekkert annað og fyrir sumum þeirra er fullkomnun Yakitori það eina sem kemst að. Vinsælast er að fólk komi við á Yakitori stöðum t.d. eftir vinnu með samstarfsfólki og fái sér 2-3 spjót og bjór eða Sake með áður en haldið er heim. 

Samkvæmt hefðinni er Yakitori annaðhvort salt eða sætt/salt. Sölt Yakitori spjót eru þá einungis krydduð með salti og hvítum pipar en þó er mun vinsælla að spjótin séu sæt/sölt, þá eru þau böðuð í Tare sósu.

Eins og Japönum einum er lagið þá leggja menn mikinn metnað og vinnu í sín spjót og oft er lögð gríðarleg vinna í það að ná fram einungis örlítið betri árangri. Yakitori er grafalvarlegt mál eins og fram kemur í bók TORI+SALON. 208 blaðsíðna bók sem kennir meðal annars 11 mismunandi leiðir til þess að skera niður og þræða kjúklinga lifur og 8 mismunandi leiðir til þess að skera niður hjörtu!!

Eftir að búið er að skera niður hráefni, þræða á bambustein og krydda eftir kúnstarinnar reglum er komið að því að grilla spjótin. Hefðbundin Yakitori spjót eru grilluð yfir Binchotan viðarkolum á sérstökum Konro grillum. Binchotan, einnig þekkt sem “hvít kol”, eru eftirsótt kol, gerð úr japanskri Ubame Eik. Gæði kolanna eru mjög mikil en þau eru dýr og æ erfiðara er að fá kolinn þar sem Ubame eik fækkar ár frá ári á sama tíma og Yakitori verður æ vinsælla.

En snúum okkur nú að eldamennskunni. Mig langaði að reyna að herma sem mest eftir því hvernig hefðbundin Yakitori spjót eru gerð. Ég ákvað því tvennt; ég myndi grilla þau á “Konro” grilli og nota heimagerða Tare sósu.

Ég náði mér í gamalt kökuform úr járni til þess að nota sem Konro. Ég boraði nokkur göt neðst í formið til þess að fá loftflæði og svo var bara að prufa!

Grillið virkaði ljómandi vel og náði upp miklum hita sem er nauðsynlegt fyrir Yakitori. Það er hinsvegar mikilvægt að kveikja upp í kolunum annarsstaðar, t.d. í Chimney starter og færa þau svo sjóðheit ofan í Konro grillið.

Næst á dagskrá var svo að útbúa Tare sósuna. GEGGJUÐ sósa sem ég get ekki mælt nógu mikið með að prufa. Mig raunverulega hlakkar til að búa þessa sósu til aftur og prufa að nota hana á aðra hluti. Ég setti sósuna inn sem sér færslu svo það væri auðveldara að finna hana aftur.

Tare

Hefðbundin sósa fyrir Yakitori

Þegar sósan er klár er komið að kjúklingaspjótunum. Ég ákvað að gera negima spjót sem eru venjuleg Yakitori með kjúklingalærum. Kjúklingalæri er auðvelt að elda og erfiðast að klúðra í rauninni. Það má elda þau í töluverðann tíma og allar líkur eru á því að þau verði safarík og góð. Leggið nú bambus spjótin í bleyti í lágmark 30 mínútur og hefjist handa við að skera kjúklinginn í bita.

Ég skar líka niður vorlauk og hafði á milli kjúklingsins á spjótunum. Næst er svo komið að því að grilla spjótin. Takið ca 1/4 af sósunni frá til þess að pensla kjúklinginn eftir að hann kemur af grillinu. Hitið vel upp í grillinu og skellið spjótunum á. Penslið þau með Tare sósunni og grillið í 8-10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Færið spjótin á disk og penslið (ekki með sama penslinum samt) með Tare sósunni. Það getur líka verið sniðugt að setja sósuna í sprautubrúsa svo hægt sé að enda á því að sprauta vel af sósu yfir.

Ok … nú er komið að því að smakka. Þetta er svo ótrúlega gott að það er alveg með ólíkindum. Kjúklingur, kolagrillið og Tare sósan ….. algjörlega geggjað. Það þarf í raun ekkert meðlæti með þessu en ef tilgangurinn er að hafa þetta sem fulla máltíð myndi ég prufa að setja þetta inn í vefju. Ég gerði það, setti vel af eldheitri chilli sósu með og það var svo gott að það er eiginlega bara fyndið.

Eldheit chilli sósa

Þessi er fullorðins

Mjúk flatbrauð

Þessi eru fljótleg og stórgóð


Að lokum

Endilega prufið þetta og ennbetra…látið mig vita ef þið gerið það! Mér þætti ótrúlega gaman að sjá ef þið búið til ykkar eigin Konro og Tare og upplifið þessa uppskrift eins og ég gerði. Þið sjáið ekki eftir því!Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.