Villtir matsveppir

Það hefur ekki verið mjög vinsæl iðja á meðal íslendinga að týna sér sveppi til matar. Hér á landi vaxa þó þónokkrar tegundir villtra matsveppa og eru sumar tegundir með betri matsveppum sem finnast. Þetta virðist þó vera að breytast og örlar fyrir auknum áhuga á meðal fólks að nýta sér þessa aðferð til þess að upplifa íslenska náttúru enn frekar. Að fara í sveppamó með fjölskyldu eða vinum er frábær leið til þess að njóta útivistar saman í fallegu umhverfi og víkka sjóndeildarhringinn í því sem landið hefur upp á að bjóða.

Áður en haldið er út í fyrstu sveppaferðina skiptir öllu máli að kynna sér vel og vandlega hvaða tegundir eru ætar og hverjar ekki. Á íslandi vaxa víða mjög eitraðir sveppir sem geta valdið allt frá vægum óþægindum til dauða. Þetta þarf þó alls ekki að vera til þess að fólk hætti við að fara því auðvelt er að bera kennsl á nokkrar vinsælar tegundir. Gott getur verið fyrir byrjendur að velja sér 2-3 tegundir sem það getur auðveldlega borið kennsl á og halda sig við þær og auka svo smátt og smátt við þekkingu eftir því sem á líður. Best er að leita að villisveppum í skóglendi og þá sérstaklega við göngustíga.

Í sveppamó sjáum við að mestu tvær tegundir sveppa; fansveppi og pípusveppi. Það sem við sjáum er þó ekki sveppurinn sjálfur enda býr hann neðanjarðar. Það sem við sjáum vaxa er í raun aldin sveppsins, svipað og epli á eplatré. Fansveppir hafa langar fanir undir hattinum sem geyma sveppagróin og að sama skapi hafa pípusveppir örmjóar pípur sem standa lóðrétt upp í hattinn. Þeir sveppir sem ég ætla að fjalla um hér eru allir pípursveppir að undanskildum einum svepp, Kantarellu. Yfirleitt er best að týna tiltölulega nýja og smærri pípusveppi þar sem að gamlir sveppir eru oft maðkaðir. Hægt er að sjá hvort sveppur sé maðkaður með því að skera hann í sundur og skoða holdið.

Kóngsveppur

Einn allra besti matsveppur hér á landi er Kóngsveppurinn. Hann er afar bragðgóður, kjötmikill og heldur sér vel sé hann frystur eða þurrkaður. Kóngsveppurinn er pípusveppur, hefur ljósbrúnan hatt, þykkan staf og sé hann vandlega skoðaður má sjá örfínt net efst upp undir hattinum. Kóngsveppinn er helst að finna í gömlum skógarbotnum og þarf oft að fylgjast vel með þar sem hann getur verið nokkuð falinn undir mosa og öðru.

Kúalubbi

Kúalubbi er afar góður matsveppur og vex mjög víða. Kúalubbinn er pípusveppur, hefur brúnan hatt og grannan staf. Stafurinn sjálfur er hvítur en utan á honum eru svartur litur sem minnir hellst á hárlubba.

Kantarella

Það má segja að Kantarellan sé vinsælasti matsveppurinn enda afbragðsgóður sveppur og mikils metinn víða um heim. Kantarellan er ekki fansveppur þó hún líti út fyrir það, heldur er hún rifsveppur. Undir hattinum er löng rif sem líkjast fönum og ná frá staf og út að brún hattsins. Kantarellan er appelsínugul að lit og yfirleitt frekar smávaxin. Kantarellan vex víða á skógarbotni en getur þó verið vandfundin ásamt því að fólk segir yfir leitt ekki frá þeim stað sem það hefur fundið Kantarellur vegna þess að þær vaxa oft á sama staðnum ár eftir ár!

Girnilegar Kantarellur!

Lerkisveppur

Lerkisveppur er mjög algengur sveppur hér á landi og afar góður. Þetta er pípusveppur, auðþekkjanlegur gulur hatturinn á honum getur verið fremur slímugur sé hann tíndur í eða strax eftir rigningu, annars er hann þurr. Eins og nafnið gefur til kynna þá vex sveppurinn þar sem Lerkitré er að finna og best er að tína unga sveppi því þeir eldri geta oft verið maðkaðir.

Lerkisveppur (Suillus grevillei) Wikipedia

Furusveppur

Furusveppurinn er algengasti matsveppurinn hér á landi. Hann vex mjög víða, t.d. í Heiðmörk, og er auðþekkjanlegur á dökkbrúnum hatti og gulleitu pípulagi. Best er að hreinsa filmuna af hattinum þegar hann er tíndur, en hún er slímug og óspennandi.

Furusveppur (mynd:Wikipedia)

Sveppamó

Sveppir vaxa mjög víða á íslandi en þó er best að leita í gömlum og grónum skógarbotnum. Hafa skal með bastkörfu eða bréfpoka til þess að geyma sveppina í, en forðast að nota plastpoka eða önnur ílát sem anda ekki. Einnig getur verið mjög gott að hafa meðferðis sveppakver sem auðveldar greiningu sveppanna og sveppahníf sem er lítill hnífur með bjúglaga blaði öðru megin og pennsli hinum megin. Skera skal sveppinn alveg við jörðu, skera burt skemmdir og óhreinindi og henda frá sér á staðnum og nota svo pensilinn til þess að dusta af sveppnum ef þess þarf. Gott er svo að venja sig af því að slíta upp sveppi sem vitað er að munu ekki lenda í sveppakörfunni. Óhætt er að byrja að líta eftir sveppum um miðjan júlí en aðal vaxtatíminn er í ágúst og fram á haust eða þar til byrjar að frysta. Best er að fara í góðviðri, 2-5 dögum eftir góða rigningu.

Geymsla

Ýmsar aðferðir eru til að geyma sveppi. Þá er til dæmis hægt að þurrka, frysta eða setja í olíu. Bestir eru sveppirnir þó nýjir og ætti að leggja kapp á það að ganga frá sveppunum um leið og komið er heim úr sveppamó, hvort heldur sem eigi að nýta þá strax eða geyma.

Að lokum

Ég mæli með að byrjendur fái sér bókina Íslenskir matsveppir eftir Ásu Margréti Ásgrímsdóttur þar sem farið er vel yfir greiningar á þeim sveppum sem kallaðir eru matsveppir og þeim sem eru eitraðir. Einnig verður að taka það fram að aldrei skal neyta sveppa þar sem einhver vafi leikur á um hvaða tegund er að ræða.

Góða skemmtun!!

Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.