Útieldhús – Undirbúningur og grindin

Nútíma eldamennska fer að mestu fram innandyra. Það er yfirleitt ekki fyrr en komið er að sumri og vacuumpakkaðar grillsteikur fara að sjást í búðarborðum að landsmenn dragi fram grillin og eldi mat undir berum himni. Þetta þarf þó ekki að vera svona. Matreiðsla undir berum himni opnar alveg nýja vídd í eldamennsku þar sem auðvellt er að leika sér með opinn eld, reyk og fleira og með því að búa sér til einfalda aðstöðu utandyra er hægt að elda úti allan ársins hring. Ég ákvað að taka málið örlítið lengra og útbúa útieldhús með öllu tilheyrandi.

Hugmyndavinna

Ég hugsaði mig lengi um varðandi uppbyggingu útieldhússins. Ég á bæði gasgrill og kolagrill sem ég vildi að væri innbyggt í eldhúsið, vaskur er „nauðsynlegur“ til þess að hafa greiðann aðgang að vatni og geta skolað áhöld og annað slíkt án þess að hlaupa alltaf inn í hús, eldofn (pompeii) er eitthvað sem hefur lengi verið á verkefnalistanum og svo bjórdæla fyrir heimabruggið! Einnig vildi ég hafa pláss fyrir framan eldhúsið fyrir barstóla. Eldhúsið sjálft er byggt úr timbri, borðplatan úr steypu og skyggni yfir öllusaman. Stórt og mikið verkefni sem vel er hægt að leysa með góðum undirbúningi og vel þess virði að ráðast í!

Skipulag, hönnun og smíði

Það skiptir gríðarlegu máli að skipuleggja eldhúsið vel. Því meira sem lagt er í undirbúning og skipulag, því auðveldari verður framkvæmdin. Ég byrjaði á því að ákveða staðsetningu eldhússins og mæla út það pláss sem ég hafði. Eftir það mældi ég alla hluti sem ég ætlaði að hafa í eldhúsinu; gasgrillið, kolagrillið, eldofninn, vaskinn og bjórdæluna. Ég teiknaði yfirborðsmynd af öllum íhlutunum (grillum, vask o.s.frv.) og klippti út. Svo raðaði ég þessu upp á blað og smám saman kom skipulag elhússins í ljós. Þegar þetta var komið reiknaði ég ca það magn af timbri sem ég þurfti og setti saman grindina. Þar sem að eldhúsið er byggt úr timbri þurfti ég að gera ráð fyrir hitaeinangrun. Ég skoðaði ýmsar lausnir en fann svo á endanum eldfasta kubba frá Sænska framleiðandanum Ytong. Þessir kubbar eru ódýrir, nánast algjörlega eldfastir, leiða engan hita og mjög auðvelt er að saga þá til. Einnig þarf að skoða undirlag eldhússins vel. Mitt eldhús er byggt ofan á timbur sólpall og ég þurfti að vera viss um að pallurinn þoldi þungann af eldhúsinu sem getur verið gríðarlegur vegna borðplötunnar og eldofnsins, en meira um það síðar.

Mig langar að blanda saman rustic/sveita stíl og nútíma byggingarefnum þannig að ég mun klæða grindina með bandsagaðri furu sem mun passa vel við steypta borðplötuna og glansandi stálið í grillunum. Grindina smíðaði ég úr 2×4 skápþurri furu og skrúfaði saman með 5×90 ryðfríum skrúfum. Sá hluti grindarinnar sem heldur uppi eldofninum þarf að vera sérstaklega sterkur svo að ég hafði stoðirnar í honum úr 95×95 staurum og setti skástífur í hann. Ég endaði svo á því að gagnverja grindina.

Það skiptir miklu máli að það lofti vel um allt saman. Þegar búið er að klára eldhúsið ætti loft a eiga greiða leið um alla hluti eldhússins, líka inn í skápa. Einnig vildi ég ekki að eldhúsið myndi liggja uppvið pallinn og setti því 10mm þykkar nylonskífur undir eldhúsið sem gefur mér góða öndun þar undir.

Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.