Eldbakaðar Pizzur

Það geta allir verið sammála um það að eldbakaðar pizzur eru algjört lostæti. Með því að koma sér upp réttum græjum og með smá æfingu, er hægt að baka fullkomnar eldbakaðar pizzur heima fyrir hvenær sem er. Ég hef gert margar tilraunir með þetta og þær pizzur sem ég geri á grillinu heima í dag eru þær bestu sem ég hef bragðað.

Grillið

Það er mikilvægt að vera með gott kolagrill. Aðal málið í þessu er að grillið geti náð um 350°C hita og geti haldið þessum hita í þann tíma sem tekur að baka pizzurnar. Sjálfur nota ég Kamado grill sem er egglaga grill gert úr keramiki. Þetta grill er alveg ofboðslega þétt, sem veldur því að auðvelt er að stjórna hitastiginu á kolunum með því að stilla lofttúður ofan á grillinu og að neðan. Loft sogast s.s. inn um neðra loftinntak, í gegnum kolin og út um efra loftopið. Keramikið hitnar svo og heldur hita mjög vel sem kemur í veg fyrir hitaflökt í grillinu.

Kamado krill

Áhöld og græjur

Fyrir utan grillið er mjög mikilvægt að hafa góðan pizzastein. Pizzasteinninn er hafður í grillinu á meðan það er að hitna, hann dregur í sig hita og heldur honum mjög vel í sér. Varast skal að setja kaldann pizzastein inn í heitt grill þar sem ör hitabreiting getur orðið til þess að steinninn brotnar. Það er mjög mikilvægt að setja pizzurnar beint á pizzasteininn og ekki hafa neitt á milli eins og t.d. bökunarpappír. Það sem gerist er það að pizzasteinninn dregur í sig raka úr pizzadeiginu sem er fosenda þess að við fáum stökkan og góðan botn.

Það er einnig miklvægt að hafa hitaplatta undir pizzasteininum og smá bil á mill þessara tveggja hluta. Ég er með netta járngrind sem er um 5cm á hæð sem ég set ofan á grillgrindina sjálfa. Ofan á þessa járngrind set ég svo pizzastein sem ég nota sem hitadreifingu. Ofan á hann koma svo millilegg. þarna er ég að nota bara þrjá járnvinkla og set svo seinni pizzasteinin ofan á þá. Við þetta myndast loftun á milli þessara tveggja steina sem kemur í veg fyrir að botninn á pizzunni brenni áður en toppurinn er tilbúinn.

Auk þessara hluta er nauðsynlegt að hafa pizzaspaða. Hann auðveldar alla vinnu við að koma pizzum á og af grillinu og dregur úr hættu á því að maður brenni sig. Einnig þarf að nota góð viðarkol. Þau eru laus við öll uppkveikiefni og eru aðeins hreinn viður. Ég hef notað Marienburg kolin frá BYKO.

Hitinn

Eins og áður segir er gott að ná um 350°C hita í grillið. Ég geri þetta með því að fylla kolarýmið í grillinu eins mikið og leyfilegt er. Ofan á kolin set ég svo harðviðarkubb og opna svo lofttúðurnar alveg upp á gátt. Ég kem fyrir þremur uppkveikikubbum í kolunum og kveiki í. Grillið tekur svo um 30-40 mínútur að ná þeim hita sem ég þarf.

Baksturinn

Þegar grillið er orðið heitt er ekkert annað eftir en að henda pizzunum á. Setjið nóg af hveiti á pizzaspaðann áður en þið setjið pizzuna á hann svo að auðvelt sé að renna pizzunni af.

Vegna þess að hitinn á grillinu er svo mikill er mikilvægt að opna grillið ekki of hratt. Best er að opna smá rifu á það og leyfa smá súrefni að flæða inn áður en grillið er opnað alveg.

Rennið pizzunni á steininn og lokið grillinu. Vegna þess hve hitinn er mikill ætti ekki að taka lengur en um 90sekúndur að klára pizzuna svo það þarf að fylgjast vel með að hún brenni ekki.

Að lokum

Það er ótrúlega skemmtileg þegar maður hefur náð tökum á þessu og ég mæli alveg heilshugar með því að fólk prufi sig áfram. Pizza kvöldin verða ekki söm eftir þetta!

Comments are closed.