Tear&Share Hvítlauksbrauð

Ok… þetta eru einhver mest flöffí brauð sem ég hef nokkurntíman bakað. Það er alveg svona bakarís bragur yfir þessu. Fáránlega vel heppnuð brauð sem hægt er að nota á ótal annan hátt en sem hvítlauksbrauð.

Ég sé fyrir mér að hægt er að sleppa hvítlauknum og pensla þau t.d. með smjöri og sesamfræjum… þá er maður kominn með fullann bakka af litlum hamborgarabrauðum sem maður getur tekið með sér í bústaðinn eða í útileguna! Önnur hugmynd væri að rífa parmesan eða mozzarella ost yfir, þá er maður kominn með geggjaðar morgunverðarbollur sem hægt er að smyrja með einhverju áleggi. Önnur hugmynd væri að fylla þær með osti, pestói eða einhverju allt öðru. Bara um að gera að leyfa hugmyndafluginu að ráða ferðinni!

Það er líka kostur að brauðið sjálft er ekki mjög bragðmikið. Þessvegna fær allt álegg og krydd að njóta sín algjörlega og því er líka mikilvægt í þessari uppskrift að spara alls ekki hvítlaukinn og salta vel yfir með sjávarsalti. 

Jæja, sumir vildu kanski vaða beint í smjörgerðina og það er allt í góðu. Það getur þó verið sniðugt að nýta eitthvað af hefunartíma brauðsins í að gera þetta. 

En hvað um það.

Hvítlaukssmjör

Hráefni

 • 500 gr Ósaltað smjör við stofuhita
 • 1 Heill Hvítlaukur
 • 1 Sítróna
 • 1 Búnt Steinselja
 • 1 tsk Cayenne pipar

ATH. Þetta er talsvert meira magn en við notum í þessa uppskrift. Við þurfum ekki nema ca 1/4 af smjörinu þannig að þið skiptið restinni upp í 2-3 skammta, setjið í matarfilmu og rúllið upp í litlar rúllur. Skellið því svo í frysti þar sem það geymist auðveldlega í 6mánuði!

Aðferð

 1. Setjið smjörið í skál og kreistið hvítlaukinn út í með hvítlaukspressu (eða saxið hann mjög smátt).
 2. Saxið steinselju smátt, rífið niður börkinn af sítrónunni og bætið út í smjörið ásamt Cayenne piparnum.
 3. Blandið öllu vel saman (bónusstig fyrir þau sem nota hendurnar!) og setjið til hliðar.
 4. Takið frá 1/4 af smjörinu til þess að nota í brauðin og setjið restina í frysti.

Næst er það svo brauðið. Það tekur smá tíma að græja það vegna þess að við hefum það tvisvar sinnum, samtals í um 2.5klst en við látum það ekki þvælast fyrir okkur!

Brauðið

Hráefni

 • 800gr Próteinríkt hveiti (t.d. blátt kornax)
 •  7gr Þurrger
 • 1 tsk Sjávarsalt
 • 100ml Bragðlítil olía
 • 450ml Volgt vatn
 • ca 100gr Brauðraspur

Aðferð

 1. Setjið hveiti, ger og salt í hrærivélaskál og blandið vel saman.
 2. Blandið olíunni og vatninu saman. Kveikið á hrærivélinni á lægstu stillingu og hellið vatnsblöndunni rólega út í þar til allt er komið saman. Hækkið aðeins kraftinn í hrærivélinni og hnoðið deigið í 10 mínútur.
 3.  Breiðið rakt viskustykki yfir skálina og látið hefast á hlýjum stað í 60 mínútur (nú er tilvalinn tími til að búa til hvítlaukssmjörið!)
 4. Sækið það form sem þið ætlið að nota undir þetta og makið vel að innan með ca 1/3 af hvítlaukssmjörinu.
 5. Hellið brauðraspinum í formið og veltið til og frá þar til allt smjörið er þakið brauðrasp, bæði botn og hliðar.
 6.  Skiptið deiginu nú upp í 35 kúlur og raðið í formið (5×7 kúlur). 
 7. Takið nú aftur 1/3 af smjörinu og dreifið yfir bollurnar, ofan á þær og í kring. Hyljið aftur með viskustykki og látið hefast í um 90 mínútur á meðan þið hitið ofninn í 190°C
 8.  Saltið vel með sjávarsalti yfir bollurnar og bakið í ofni í um 30 mínútur eða þar til þær fara að brúnast fallega.
 9. Dreifið nú restinni af smjörinu yfir mollurnar og berið fram!

Til hamingju! Þú ert núna vinsælasti fjölskyldumeðlimurinn!!!

Svo er bara spurning um að frysta það sem ekki er borðað og þá er hægt að hita þetta upp í ofni seinna!

Comments are closed.