Reykt svínarif

Þessi færsla er ekki beint uppskrift heldur leiðbeiningar um það hvernig gera má fullkomin reykt baby back svínarif á grillinu heima!

Reykt baby back svínarif hafa lengi verið ótrúlega vinsæll grillmatur út um allan heim og að mínu mati er ekkert skrítið við það. Kjötið á rifjunum hentar fullkomlega í hægeldun (e. low and slow) og þeir sem ná að gera virkilega góð reykt svínarif frá grunni heima fyrir færast upp um að minnsta kosti eitt til tvö level á grillmeistaraskalanum!

Til þess að gera góð baby back svínarif þarf nokkra hluti. Við þurfum jú baby back rif sem eru efri hluti rifjanna á dýrinu. Þeas sá hluti rifjanna sem liggur næst hryggnum. Við þurfum góða kryddblöndu, viðarkubba og tíma. Að gera góð svína rif tekur svolítinn tíma en eins og flestir vita að þá er það vel þess virði og í raun fullkomið helgarverkefni í eldhúsinu!

Undirbúningurinn

Verðið ykkur úti um rifin. Ég hef fengið mjög góð rif í Costco og Fjarðarkaupum en mestu máli skiptir er að þegar þið horfið ofan á rifin að þið sjáið ekki í beininn. þeas segja að ekki er búið að skafa svo mikið kjöt ofan af rifjunum að beinin sjáist.

Engin bein sjáanleg!

Skolið af rifjunum með vatni og þurrkið þau með hreinu viskastykki. Því næst er nauðsynlegt að hreinsa í burtu himnu sem liggur yfir neðri/innri hluta rifjanna. Gott er að nota borðhníf til þess að komast undir filmuna og nota svo tissjú til þess að grípa utan um hana og rífa af. Þetta er smá dund en alveg nauðsynlegt skref.

Þegar þessu er lokið er komið að því að krydda rifinn. Ég (og margir aðrir) byrja alltaf á því að bera sinnep utan á öll rifin. Sinnepið mun ekki gefa neitt bragð en það hjálpar til við að láta kryddblönduna festast við kjötið. 

Kryddið því næst rifin og ekki spara kryddið! Hver einasti hluti rifjanna á að vera þakinn kryddblöndu. Ég hef prufað margar kryddblöndur á svona rif en best þykir mér að nota það sem yfirleitt er kallað SPG eða “salt, pepper and garlic”. Þá blanda ég saman í jöfnum hlutföllum salti, grófmöluðum pipar og hvítlauksdufti og nota þetta til þess að krydda rifin.

Það er þó um að gera að prufa sig áfram í þessu skrefi og sjá hvað ykkur finnst best. Það eru til ótalmargar útfærslur af rifjakryddblöndum, bæði uppskriftum og tilbúnum úr búð.

Krydduð rif tilbúin í reyk

Reykingin

Það eru til margar aðferðir við að reykja rif en mér hefur reynst eftirfarandi aðferð best. Ég nota blöndu af eplavið (ca 70%) og hickory (ca 30%). Ég reyki þetta í þar til gerðum reykingarofni en hægt er að nota nákvæmlega sömu aðferð með venjulegu grilli en þá er viðurinn settur annaðhvort beint ofan á kolin eða í þar til gerðan reykkassa sem fer svo ofan á brennara í gasgrilli. Það eina sem þarf að passa þegar notað er venjulegt grill er það að rifin mega ekki vera beint fyrir ofan kolin eða gasið, þetta þarf að vera gert við óbeina eldun. Annað sem þarf að passa er það að ef hitagjafinn og viðurinn er öðru megin í grillinu þá þarf að vera útöndun í gagnstæðum enda. Þannig getum við verið viss um að reykurinn muni umlykja rifin áður en hann fer út úr grillinu.

  1. Hitið nú grillið og reynið að halda því eins nálægt 125°C og þið getið allan tíman. Setjið viðarkubba inn þannig að grillið byrji að gefa frá sér reyk.
  2. Setjið bakka með vatni beint undir þann stað sem rifin eiga að vera á. Passið að bæta meira vatni í bakkann ef vantar.
  3. Setjið rifin inn í grillið og reykið í 2klst.
  4. Takið rifin út, vefjið í álpappír ásamt púðursykri, smjör og einhverjum vökva. Setjið aftur inn í grillið og eldið í álpappírnum í 1klst.
  5. Takið rifin úr álpappírnum og makið þau með bbq sósu. Setjið aftur inn og eldið í 20-30 mínútur

ok, þetta er s.s. ekkert mál. Í aðferðinni hér að ofan byrjum við á því að ná okkur í viðarkubba, hita upp grillið og koma fyrir bakka með vatni beint undir þeim stað sem kjötið á að vera.

Þegar grillið er komið í 125°C og greinilegur reykur er byrjaður að stíga frá því er hægt að skella rifjunum inn.

Nú er bara að passa hitastigið og að grillið hafi nóg við að brenna næstu tvo klukkutímana. 

Rif og fleira eftir tvo tíma í reyk

Nú er komið að því að vefja rifin í álpappír. Byrjið á því að setja um 1msk af púpursykri og 2msk af smjöri á álpappírinn. Setjið svo rifin ofan á með kjöthliðina niður. 

Því næst bætum við vökva í álpappírinn áður en við lokum honum. Hér er hægt að leika sér og nota t.d. Eplasafa, engiferbjór, bjór (dökkan eða ljósan), kók, dr.pepper, rootbeer, ananassafa eða bara það sem ykkur dettur í hug. Ég prufaði t.d. hér að nota engiferbjór og það kom mjög mikið engiferbragð af rifjunum, alveg geggjað!

Skellið þessu nú aftur inn í grillið og eldið við 125°C í klukkustund.

Takið svo rifin úr álpappírnum. Farið varlega hér því þau falla auðveldlega í sundur (mmmm…)!!! Penslið þau með uppáhalds bbq sósunni ykkar og skellið aftur inn í grillið. Hér er óþarfi að hafa reyk í gangi.

Jalapeno bbq sósa

Ég notaði þessa sósu á rifin. Sterkjan úr jalapenó passar frábærtlega með sætunni úr púðursykrinum og eplasafanum.

Jæja, nú fer þessu að ljúka. Takið rifin út og þau eru tilbúin. Hér má pennsla þau aftur með sósu ef þurfa þykir en ég hef aldrei þurft þess.

Ég lofa ykkur því að þetta verða einhver bestu rif sem þið hafið smakkað. Berið fram ein og sér með ísköldum bjór. Eða bætið við hrásalati, súrum gúrkum, bökuðum baunum og góðu brauði fyrir geggjaða máltíð!Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.