Reykt salsa

Þetta salsa er klárlega svolítið frábrugðið hefðbundnu fersku salsa. Reykbragðið skilar sér vel og passar vel með öðrum reyktum mat svo sem reyktum grísarifjum eða öðru slíku. Örlítið meiri fyrirhöfn en í venjulegu salsa en klárlega þess virði að prufa.

Hráefni

  • 4 vel þroskaðir tómatar
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 2 ferskir jalapenó
  • 1 rauðlaukur
  • Slatti að kóríander
  • Safi úr einu lime
  • 1/2 papaya eða einhver sætur ávöxtur (valkvætt)

Skerið tómatana og laukinn í fjóra hluta og jalapenó í tvennt. Hreinsið burtu steinana úr jalapenóinu ef þið viljið ekki hafa þetta of sterkt.

Raðið tómötum, lauk, jalapenó og hvítlauksgeirum á grind. Komið grindinn fyrir í ca 120°c heitu grilli eða reykofni og reykið í 60 mínútur. Ef notað er kolagrill er hægt að henda viðarbútum beint á kolin eða beint á brennara í smá álpappírsvasa ef notað er gasgrill. Ég notaði epla við sem kom mjög vel út en ég gæti trúað að hérna væri líka gott að nota hickory.

Eftir reykingu ilmar grænmetið stórkostlega! 

Leyfið að kólna svolítið á grindinni og saxið svo allt niður í þann grófleika sem ykkur þykir bestur. Ef þið viljið mjög fínt salsa þá er gott að setja þetta bara beint í matvinnsluvélina en ef leitað er af meira “chunky” salsa þá er hægt að saxa þetta bara gróflega niður.

Skellið öllu í skál og smakkið til með lime og salti. Setjið inn í kæli og berið fram kalt eða skellið þessu beint á borðið og berið fram sem volgt salsa með söltu snakki eða sem meðlæti!Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.