Pulled Pork – Asískt & Amerískt

Það geta flestir verið sammála um það að pulled pork sé algjör veislumatur. Þessi “réttur” hefur verið afskaplega vinsæll í langan tíma og alls ekkert undarlegt við það. Eftir slíka “low and slow” eldun sem beitt er verður áferðin á kjötinu frábært og bragðið alveg ótrúlega gott, en það fer svosem eftir því hvernig kjötið er “kryddað”.

Ég ætla að renna yfir tvær útgáfur af pulled pork. Eldunaraðferðirnar eru þær sömu en kryddlögurinn úr sinhvorri áttinni; annað asískt en hitt amerískt.

Yfirleitt er pulled pork reykt en ég sleppi því hér. Það er aðeins meiri vinna að reykja þetta og ekki allir sem hafa aðstöðu til þess og það er allt í góðu, það er alls ekkert síðra að gera þetta bara í bakaraofninum!

Við byrjum á hráefnunum. Ég notaði sinhvorn 2.2kg svínabóginn með beini. Fjarlægði puruna ofan af og hafðist svo handa við að krydda.

Sá Ameríski

Fyrir amerísku útgáfuna byrjaði ég á því að maka bóginn með þunnu lagi af sætu sinnepi og sterkri sósu (hot sauce). Því næst kryddaði ég hann mjög vel með kryddblöndu sem ég kalla “sætur reykur”. Sú kryddblanda inniheldur reykta papriku sem gefur örlítinn reyktann keim og svo fullt af púðursykri sem gerir hana sæta og góða.

Sætur reykur

Frábær kryddblanda sem smellpassar á allt grillkjöt.

Skellið kjötinu í djúpann bakka eða pott og hellið einum litlum bjór út á. Lokið bakkanum með álpappír og komið fyrir í 110°C heitum ofni.

Eldunartími getur verið misjafn hér en 2.2kg stykki tók 6klst hjá mér sem er algjört lágmark. Hér er best að vera með kjötið mjög lengi inni í ofni, t.d. 10-12klst og þannig að það hafi náð um 96°C

Sá Asíski

Þá er komið að því að græja asíska svínabóginn. Ég var með jafn stóran bóg (ca 2.2kg með puru og beini) og hægeldaði hann í þykkbotna potti með lokið á.

En fyrst var að græja kryddlögin.

Hráefni

  • 1 dl Sojasósa
  • 1/2 dl Mirin
  • 1/2 dl Hrísgrjónaedik
  • 3 msk Tómatsósa
  • 2 msk Sætt sinnep
  • 1 msk Hvítu sykur
  • 1 dl Sesamfræ
  • 1/2 dl Brennivín (má sleppa)

Maukið sesamfræin í mortéli og blandið svo öllu saman. Smakkið til þar til þið eruð sátt við bragðið.

Setjið kjötið í pott og hellið blöndunni yfir. Smellið svo lokinu á og inn í ofn við 110°C í amk 6klst en 10-12klst væri best!

Meðlætið

Ein vinsælasta aðferðin til þess að borða pulled pork er að búa til samloku. Hér er hægt að nota í raun hvaða brauð sem er og leika sér svo með þau álegg og sósur sem þér þykir best. Yfirleitt er notuð bbq sósa og hrásalat en ég notaði Japanskt majónes og chilli majónes til þess að breyta aðeins til og það kom frábærlega út!

Ég notaði einnig þetta sérstaklega ferska hrásalat en það passar mjög vel saman við samlokuna, sérstaklega ef maður er að nota majónes. Sýran úr sítrónunni tónar majónesið aðeins niður og kemur þessu öllu í mjög gott jafnvægi. Salatið er afar einfald en ég skar bara niður hvítkál og rauðlauk eins þunnt og ég gat og kreisti svo sítrónusafa yfir. Einfaldara verður það varla!

Ég bakaði svo brauðbollur til þess að hafa með þessu sem voru alveg geggjaðar. Þær eru mitt á milli þess að vera brauð og Brioche, aðeins sætar og svolítið þéttar en samt sem áður mjúkar og góðar. Þessar bollur eru mjög bragðgóðar og smellpassa t.d. við morgunverðarborðið með osti og sultu.

Brauðbollur

Deluxe hamborgarabrauð!

Að lokum

Eftir að kjötið kemur úr ofninum er ágætt að leyfa því að hvíla í allavega 10 mínútur. Með þessu móti fær kjötið að jafna sig og safinn sem er inni í kjötinu nær að dreyfa sér um allt kjötið og þannig komum við í veg fyrir að kjötið verði þurrt. 

Rífið kjötið niður með tveimur göflum. Hellið svo vel af safanum úr bakkanum yfir kjötið og blandið saman. Þetta eitt og sér er alveg nógu bragðmikið en það er einnig hægt að bæta t.d bbq sósu saman við til þess að fá þannig bragð af kjötinu.

Þá fer þessu bara að ljúka! Skerið eina brauðbollu í tvennt, setjið vel af japönsku majónesi á báða helminga ásamt nóg af kjöti og salati. Berið svo fram t.d. með lime sneiðum, súrum gúrkum, snakki, kartöflusalati eða frönskum. 

Það er líka mjög sniðugt að bera þetta fram á borð með allskonar sósum og meðlæti þannig að hver og einn getur sérsmíðað sína samloku eins og þeim finnst best!Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.