Ostagerð – Ricotta

Fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á því að prufa ostagerð er varla hægt að finna einfaldari leið að byrja en að útbúa Ricotta. Ricotta er ferskostur sem þýðir að hann er bestur þegar hann er glænýr og ferskur en það tekur einungis um 30 mínútur frá því hafist er handa og þar til osturinn er tilbúinn!

Áhöld

  • Þykkbotna pottur
  • Ostaklútur
  • Sigti

Hráefni

  •  2L Nýmjólk
  • 1 bolli Rjómi
  • 3 msk Ferskur sítrónusafi
  • 1tsk Salt

Aðferð

Byrjið á því að hella mjólkinni, rjómanum og salti í þykkbotna pott.

Hitið mjólkurblönduna þar til hún er rétt farin að sjóða. Passið að hræra í annað slagið svo að mjólkin brenni ekki.

Slökkvið á hitanum og blandið sítrónusafanum út í.

Eftir að sítrónusafinn er kominn út í hleypur blandan nánast strax í kekki. Þetta er nákvæmlega það sem við viljum að gerist en þarna eru ostefnin að bindast saman og skilja sig frá mysunni. Nú þarf bara að hræra varlega í þessu í 1-2 mínútur.

Komið sigti fyrir í stórri skál eða potti, leggið ostaklút yfir sigtið og hellið blöndunni ofan í.

Lyftið nú ostaklútnum upp úr sigtinu og hengið upp þannig að mysan geti lekið frá ostinum. Hér er um að gera að prufa sig áfram en því lengur sem þetta er látið hanga því stífari verður osturinn. Hægt er að láta þetta hanga í 10 mínútur en þá er osturinn mjög blautur og minnir helst á kotasælu. Ef osturinn er látinn hanga í 60mín verður hann mjög stífur.

Þegar ásættanlegri áferð er náð er osturinn tilbúinn! Lang best er að kæla hann örlítið og njóta strax en annars geymist hann mjög vel í lokaðri krukku í ísskáp í allavega 2 sólarhringa.

Osturinn er mjög góður á ristað brauð eða kex með sultu eða hunangi. Einnig er hægt að nota hann út í lasagna, mulinn yfir spaghetti, sem dýfa í skál með ólívuolíu-salti-og-pipar, út á salat og svona mætti lengi telja!Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

2 Comments