Matarauður – Nesti Smaladrengsins

Ég rakst á auglýsingu frá matarauður.is þar sem óskað var eftir hugmyndum af annaðhvort nýstárlegum réttum byggðum á íslenskum hefðum (eða gömlum uppskriftum) eða úr íslensku hráefni. Í verðlaun voru ýmsir hlutir tengdir mat og matargerð en sá réttur sem hreppti fyrsta sætið yrði settur á matseðil fjölda veitingastaða um allt land. Mér þótti þetta áhugaverð keppni og eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti ákvað ég að slá til.

Ég velti þessu örlítið fyrir mér og þar sem ég gat ekki með nokkru móti fundið einhverja ákveðna matarhefð sem ég man eftir eða hafði upplifað eða tekið þátt í sjálfur þá ákvað ég að fara þá leið að nota íslenskt hráefni og lífga upp á rótgróin íslenskan rétt.

Ég sendi inn tvær uppskriftir. Önnur uppskriftin er uppfærsla á hinni hefðbundnu íslensku kjötsúpu, hin uppskriftin en eitthvað sem ég sá fyrir mér að íslenskur smaladrengur hefði getað haft í nestisboxinu á ferðum um heiðar landsis. Þetta er auðvitað bara til gamans gert. Skemmtilegt að taka þátt og ég hafði með þessu afsökun fyrir því að eyða töluverðum tíma í eldhúsinu!

 

Flatkökur

Hráefni

 • 2 Bollar Rúgmjöl
 • 2 Bollar Hveiti
 • 1 tsk Salt
 • Sjóðandi vatn

Aðferð

 1. Blandið þurrefnum saman og svo sjóðandi vatni til þess að mynda nokkuð blautt deig. Deigið má þó ekki vera of blautt eins og í hefðbundnum flatkökuuppskriftum því það þarf að vera hægt að fletja það mjög þunnt út, þynnra en venjulegar flatkökur. Hnoðið deigið, slítið frá litlar kúlur og fletjið út eins þunnt og hægt er svo úr verði flatkaka sem er um 12cm í þvermál. Steikið beggja megin á sjóðheitri eldhúshellu (best er að gera þetta utandyra). Takið af hitanum og sprautið örlítið af vatni yfir með úðabrúsa.

Skyrsósan

Hráefni

 • 1 Bolli Óhrært skyr
 • Nokkur ferskt myntulauf
 • Salt
 • Hunang

Aðferð

 1. Saxið myntulaufin smátt
 2. Blandið öllu saman og stillið af með salti og hungangi

Lambið

Hráefni

 • 1 Vænn Lambaskanki
 • Húnagull (Kryddblanda frá PRIMA)
 • Ólífuolía
 • Klettasalat
 • Íslenskir Piccolo tómatar

Aðferð

 1. Lambaskanki makaður með ólífuolíu, kryddaður vel með húnagulli og settur í poka. Eldaður Sous Vide við 83°C í 8klst
 2. Lambaskankanum er svo lokað á funheitu kolagrilli. Smyrjið þunnu lagi af skyrsósu á flatköku, setjið svo klettasalat, lambakjöt og loks tómata ofaná.

 

Með þessum rétt er tilvalið að opna sér ískaldan bjór… og svo bara njóta!

Hin uppskriftin

Smelltu hérna til að skoða hina uppskriftina sem ég sendi inn

Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.