Ég rakst á auglýsingu frá matarauður.is þar sem óskað var eftir hugmyndum af annaðhvort nýstárlegum réttum byggðum á íslenskum hefðum (eða gömlum uppskriftum) eða úr íslensku hráefni. Í verðlaun voru ýmsir hlutir tengdir mat og matargerð en sá réttur sem hreppti fyrsta sætið yrði settur á matseðil fjölda veitingastaða um allt land. Mér þótti þetta áhugaverð keppni og eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti ákvað ég að slá til.
Ég velti þessu örlítið fyrir mér og þar sem ég gat ekki með nokkru móti fundið einhverja ákveðna matarhefð sem ég man eftir eða hafði upplifað eða tekið þátt í sjálfur þá ákvað ég að fara þá leið að nota íslenskt hráefni og lífga upp á rótgróin íslenskan rétt.
Ég sendi inn tvær uppskriftir. Önnur uppskriftin er uppfærsla á hinni hefðbundnu íslensku kjötsúpu, hin uppskriftin en eitthvað sem ég sá fyrir mér að íslenskur smaladrengur hefði getað haft í nestisboxinu á ferðum um heiðar landsis. Þetta er auðvitað bara til gamans gert. Skemmtilegt að taka þátt og ég hafði með þessu afsökun fyrir því að eyða töluverðum tíma í eldhúsinu!