Eftir að hafa horft á myndina Chef gat ég ekki staðist mátið og útbúið þessar girnilegu samlokur…. og ég sá ekki eftir því. Smjörsteikt brauðið, bragðmikið áleggið og geggjað mojo marinerað svínakjötið passar ótrúlega vel saman og ég hika ekki við að segja að þetta eru einhverjar bestu samlokur sem ég hef smakkað!!
Það er svo geggjað að búa þetta til og borða sem hádegismat á góðum sumardegi eða sem nesti í sumarbústaðinn eða veiðiferðina. Ef það verður einhver afgangur er hægt að pakka honum inn í smjörpappír, svo í álpappír og frysta. Þá er ekkert annað að gera en að ná sér í sneið í frystirinn og hita í örbylgjunni. Fullkomið!

Hráefni
- Góð skinka
- Sneiðar af Mojo marineruðu svínakjöti
- Brauðhleifur
- Lint smjör
- Sætt sinnep
- Ostur
- Súrar gúrkur
Aðferð
Hér skiptir öllu að vera með gott hráefni. Veljið þá skinku sem ykkur finnst vera virkilega bragðgóð. Eins með sinnepið og súru gúrkurnar, veljið eitthvað sem þið gætuð nánast borðað eitt og sér!
Fyrst er það áleggið. Eitt af einkennum þessara samloka er Mojo marinerað svínakjöt. Marinerið svínabók í Mojo marineringu í um sólarhring. Færið bóginn yfir í eldast mót með einhverskonar undirlagi eða grind svo að kjötið liggi ekki á botninum. Hellið vatni í eldfasta mótið og hellið restinni af marineringunni yfir kjöt. Setjið álpappír yfir allt saman og hægeldið á grilli eða í ofni á 130°C í 4klst
Takið nú brauðið og sneiðið eftir endilöngu. Smyrjið ytri hlið botnsins með smjör. Smyrjið svo innan í botninn með smjöri áður en þið setjið ost, mojo kjöt, skinku, ost og súrar gúrkur. Takið svo toppinn af brauðinu og smyrjið að innan með sinnepi en að utan með smjöri.
Pakkið svo samlokunni inn í álpappír og kremjið veeeeeeel niður með þungu fargi.
Að lokum eru samlokurnar hitaðar á ca 200°C heitu grilli eða bara sjóðheitri pönnu. Snúið samlokunum þannig að bæði botn og toppur verði stökkir og osturinn bráðinn.
Þetta er svo ótrúlega gott að það er nánast lögbrot að prufa ekki að búa þetta til!