Írsk kjötbaka

Kraftmikil nautakjötsbaka með ribeye og dökkum stout bjór. Fullkominn vetrarmatur!

Ég notaði ribeye steikur í þetta en það má í raun nota hvaða vöðva sem er og um að gera að nota ódýrari vöða þar sem þeir fá að meirna vel við langan eldunartíma. Einnig er gott að velja stout bjórinn vel en ég notaði heimagerðann stout bjór.

Hráefni

 • 500gr nautakjöt
 • 300ml dökkur stout bjór
 • 300ml nautasoð
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 hvítur laukur
 • 250gr sveppir
 • 4 meðalstórar kartöflur
 • hálft búnt timjan
 • hálft búnt steinselja
 • smjördeig
 • 2msk hveiti
 • 1 egg

Skerið nautakjötið, kartföflurnar og sveppina í bita og setjið til hliðar. Skerið laukinn og hvítlaukinn gróft.

Veltið því næst kjötbitunum upp úr hveiti og steikið á sjóðheitri pönnu þar til þeir eru brúnaðir á öllum hliðum. Það getur verið gott að steikja ekki of mikið í einu til þess að ná sem bestri steikingu á bitunum.

Takið kjötið af pönnunni og komið fyrir í góðum steikarpotti. Hellið smávegis af nautasoði út á tóma pönnuna og losið skófirnar sem hafa myndast, hellið svo vökvanum saman við kjötið sem er í steikarpottinum.

Skellið sveppum, lauk og hvítlauk á sömu pönnuna (ekki þvo hana á milli!) og steikið þar til sveppirnir hafa brúnast örlítið.

Bætið sveppunum og lauknum út í steikarpottinn og endurtakið leikinn með nautasoðið til þess að ná öllu úr pönnunni. Hellið vökvanum í steikarpottinn.

Setjið kartöflurnar í pottinn ásamt restinni af nautasoðinu og stout bjórnum. Leggið kryddjurtirnar í pottinn.

Setjið lokið á en hafið þó góða rifu svo vökvi sleppi út. Látið malla í ca 2 klst eða þar til hæfilegri þykkt er náð.

Fletjið út smjördeig og klæðið eldfast mót að innan með því. Setjið svo eldfasta mótið inn í 200°C heitann ofn og bakið þar til deigið er aðeins byrjað að brúnast. Það getur verið gott að gata deigið fyrst með gaffli svo það lyfti sér ekki.

Saxið niður svolítið af steinselju og hrærið saman við réttinn.

Hellið réttinum ofan í eldfasta mótið og leggið smjördeig ofan á. Skerið rákir í deigið til þess að hleypa gufu út og stingið létt í það með gaffli svo það lyfti sér ekki um of.

Sláið saman eggi og pennslið yfir deigið. Bakið svo í 200°C heitum ofni þar til smjördeigið er orðið gullinbrúnt.

Berið fram með eitt og sér eða með fersku salati ásamt góðum stout bjór eða rauðvíni.Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.