Indverskt kryddmauk

Þetta er aðeins öðruvísi kryddmauk (Masala) en maður er vanur. Inverskt að uppruna en þó ekki Tikka eða Garam sem margir eru vanir að borða og eru afar vinsæl. Þetta kryddmauk hefur mun dýpri og flóknari bragðprófíl sem verður til þegar laukur, hvítlaukur, tómatar, engifer, kanill og fleira er karmelliserað og soðið niður á pönnu í talsverðan tíma. Bragðið er mjög kryddað og framandi og ekki alveg það sem maður er vanur að borða en alveg ótrúlega gott.

Þetta kryddmauk er tilvalið að gera í tvöföldu eða þreföldu magni og eiga svo til í skömmtum í frysti. Það er hægt að nota til þessa að töfra fram indverska máltíð á mjög fljótlegan máta en einnig er hægt að nota það til þess að marinera kjöt, fisk eða kjúkling, steikja grænmeti upp úr því og margt fleira.

Þetta er aðeins meiri vinna en en að kaupa tilbúin inversk Masala út úr búð en það er ekki hægt að bera þetta tvennt saman þegar kemur að bragði, ferskleika og upplifun máltíðarinnar.

Inverskt kryddmauk

Hráefni

 • 5 – 6 Hvítlauksgeirar
 • 3 cm Engifer
 • 1 hvítur laukur
 • 1/2 rauðlaukur
 • 2 Grænir chilli
 • 8 – 10 Svört piparkorn
 • 8 – 10 Negulnaglar
 • 3cm Kanil stöng
 • 3 -4 Kardemommur
 • 1 Lárviðarlauf
 • 3 Tómatar
 • 170gr Grísk jógúrt
 • 1/2 msk Kashmiri chilli duft (eða paprika)
 • 1 msk Kóríander duft
 • Ghee eða smjör til steikingar

Aðferð

Við byrjum á því að setja hvítlaukinn og engifer í matvinnsluvél (eða mortel) og mauka mjög vel. Setjið maukið í skál og geymið.

Ekki þvo eða skola matvinnsuvélina á milli.

Hlutið niður 1 hvítan lauk og 1/2 rauðlauk og setjið í matvinnsluvélina ásamt 2 grænum chilli, 8-10 svörtum piparkornum, 8-10 negulnöglum, 3cm kanilstöng, 3-4 kardimommum, 1 lárviðarlaufi og örlitlu vatni. Maukið vel og passið að öll heilu kryddin séu… ja ekki heil lengur. Færið þetta mauk yfir í skál og geymið.

Næst setjum við 3 tómata í sömu matvinnsluvél (án þessa að skola) og maukum mjög vel.

Hitið nú stóra þykkbotna pönnu. Setjið matskeið af ghee (eða smjöri) út á pönnuna og hellið svo laukmaukinu út á. Nú þarf að steikja laukmaukið á miðlungs-lágum hita í 10-12 mínútur og hræra reglulega í á meðan. Maukið ætti að brúnast smá saman og minnka um allavega helming. Steikið áfram RÓLEGA þar til olían fer að skilja sig frá maukinu. Alls ekki hækka hitann og reyna að drífa þetta af vegna þess að við viljum ná karmellisera laukinn og ná þannig fram sætu í maukið.

Bæti nú 1 matskeið af hvítalauks-engifer maukinu út á pönnuna og steikið áfram í 2-3 mínútur.

Setjið nú alla grísku jógúrtina út á pönnuna og blandið saman.

Bæti við 1/2 msk af Kashmiri Chilli dufti (eða papriku) og 1 msk kóríanderdufti og steikið áfram í 7-8 mínútur eða þar til olían fer aftur að skilja sig frá maukinu.

Hellið nú tómatmaukinu út á pönnuna og blandið saman við maukið. Steikið í 10-15 mínútur eða þar til maukið hefur minnkað svolítið og hefur tekið á sig djúpan rauðan lit. Það gæti verið að það þurfi að bæta við örlitlu ghee á þessu stigi en haldi þó áfram að steikja þar til olían byrjar að skilja sig frá maukinu, þá vitum við að það er tilbúið.

Nú er maukið klárt og hægt að nota það til þess að bragðbæta hina ýmsu rétti. Maukið geymist í allt að 10 daga í ísskáp.

Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.