Hvítlauks chilli olía

Ein af mest notuðu kryddolíunum á mínu heimili er hvítlauks chilli olía. Þessa bragðmiklu olíu er nauðsynlegt að eiga í ísskápnum og afar gott að nota á pizzur, sem marineringu, til steikingar á t.d. grænmeti eða kartöflum, salatdressing o.fl.

Hráefni

  • Ólífuolía – virgin og extra virgin
  • Hvítlaukur
  • Chilli
  • Fersk steinselja
  • Salt & Pipar

Aðferð

Í þessari uppskrift miðast ég við að fylla nánast (80%) eina svona IKEA krukku eins og sést á myndunum.

Skerið gróflega niður 5 hvítlauksgeira og 1 chilli. Setjið í mortél ásamt svolitlu grófu salti og merjið.

Ég kaupi yfirleitt hvítlauk í Frú Laugu. Þar er hægt að fá ítalskan, lífrænt ræktaðan, rauðan hvítlauk sem er algjörlega frábær.

Setjið maukið í krukku. Saxið niður lúku af ferskri  steinselju og bætið við ásamt nýmöluðum svörtum pipar. Hellið ólífuolíu saman við og hrærið í (ég nota 50% virgin og 50% extra virgin ólífuolíu). Smakkið til með salti og pipar en athugið þó að olían er best dagin eftir.

Comments are closed.