Heimagert Engiferöl

Gosdrykkir hafa ekki alltaf verið þessi óholla sykurleðja í áldósum eða plastflöskum sem við þekkjum í dag. Hér áður fyrr var það víða stundað að fólk blandaði saman ýmiskonar gerstofnum við sæta tedrykki og gat þannig kolsýrt drykki náttúrulega. Hægt er að nota allskonar blöndur til þess að búa til gosdrykki en það sem skiptir mestu máli er að hafa góðan gerstofn og svo næga sætu. Það er til dæmis hægt að nota Engifermóðir til þess að gerja eplasafa (og búa þannig til epla cider), sæta jurtablöndu, perusafa eða eitthvað allt annað.

Ég gerði heimagert engiferöl núna á dögunum sem er algjört lostæti. Engiferrót er afar heilnæm jurt og engiferölið inniheldur góðgerla og enzím sem eru góð fyrir meltinguna. Það besta við heimagert engiferöl er það að við getum stjórnað bragðinu algjörlega. Ef það á að vera sterkt (mikið engifer) þá einfaldlega aukum við engifermagnið í blöndunni. Við getum einnig ráðið sætunni; ef þú vilt hafa ölið sætt þá gerjarðu það í stuttan tíma. Ef þú villt frekar hafa það í súrari kantinum og þar af leiðandi minni sykur, þá gerjarðu það í lengri tíma.

Gerið nærist á sykrinum í blöndunni og breytir honum í alkóhól og kolsýru. Því skal varast að gerja ekki ölið of lengi, nema þú viljir hafa það áfengt! 

 

Engifermóðir

Smelltu hér til að læra að gera engifermóður!

Hráefni

  • 8 bollar Vatn
  •  3-5cm Ferskt engifer (rifið)
  •  1/2 bolli hrásykur
  •  1/2 tsk Sjávar- eða Himalayasalt
  •  1/2 bolli ferskur sítrónu- eða límónusafi
  •  1/2 bolli Engifermóðir

Aðferð

  1. Blandið saman þremur bollum af vatni, fersku engifer, sykri og salti í potti og náið upp suðunni. Látið malla í um 5 mín eða þar til sykurinn er bráðinn og blandan ilmar af engifer.
  2. Takið pottinn af hitanum og bætið restinni af vatninu út í. Þetta ætti að kæla blönduna niður í herbergishita en ef ekki þá þarf hún að standa á eldhúsbekknum þar til hún hefur kólnað.
  3. Hellið nú öllu saman í 2 lítra, loftþétta glerkrukku.
  4. Bætið sítrónu- eða limesafa og engifermóðir út í krukkuna og hrærið vel með plastskeið.

Lokið nú krukkunni og geymið á eldhúsbekknum í tvo daga. Það getur verið gott að opna krukkuna 1-2 sinnum á þessum tíma því annars gæti hún sprungið undan þrýstingnum. Sé mjög heitt inni hjá ykkur mun þetta gerjast hraðar og taka styttri tíma. Eftir um sólarhring ættuð þið að sjá greinilega kolsýru í blöndunni (eins og í gosi).

Eftir tvo daga á eldhúsbekknum er blandan sigtuð ofan í flöskur og þær settar inn í ísskáp.

Að lokum

Gerjun er mjög margslungið fyrirbæri og erfitt getur verið að sjá fyrir um lokaniðurstöðu þegar farið er af stað. Þetta snýst meira um tilfinningu en nákvæma uppskrift því margir hlutir spila inn í gerjunina, svo sem hitastig hússins, sykurmagn, styrkur gerstofnsins, tími, magn ofl.

Það sem þarf að passa er að gerja ekki of lengi ef gerstofninn er sterkur og leyfa loftþéttum ílátum að “ropa” annað slagið með því að opna þau. Ekki viljum við að þetta springi!

Þetta gæti virst flókið ferli en er það svo sannarlega ekki. Þetta heppnast mjög vel í langflestum tilfellum og ég lofa því að ef þið prufið þá verður þetta besta engiferöl sem þið hafið nokkurn tíman smakkað.

Áttu heimagert engiferöl?

Hér er uppskrift af tveimur kokteilum sem báðir nota engiferöl

Comments are closed.