Engifer móðir

Engiferrót er vel þekkt um allan heim. Hún hefur verið notuð svo öldum skiptir í matargerð, drykki og lyf og er þekkt fyrir að vera bæði ljúffeng á bragðið og afar heilnæm. Hægt er að nýta engiferrót á ótal vegu og eitt af því besta sem fæst úr engiferi, að mínu mati, er engiferöl.

Í engiferi, eins og svo mörgu öðru, er villiger. Með því að skapa gerinu kjör aðstæður er hægt að virkja það og fá það til þess að fjölga sér. Við þetta verður fyrst og fremst til alkóhól og kolsýra, en einnig mjög heilnæm ensím og meltingagerlar. Engiferöl er því hollara en margann grunar og ekkert því til fyrirstöðu að prófa sig áfram í gosdrykkjagerð!

Áður en hafist er handa við gosdrykkjagerðina sjálfa þarf að verða sér úti um “engifer móðir”. Þetta er svipað og í Kombucha og súrdeigspælingum. Planið er s.s. að búa til öflugan gerstofn sem hægt er svo að nota til þess að “smita” vatn sem blandað hefur verið með engifer og sykri og hefja þar með gerjun í því.

Það er hlægilega einfalt að útbúa sér engifermóðir og í hana þarf aðeins þrjú hráefni; ferskt engifer, sykur og vatn.

Rífið niður um 2-3 msk af fersku engiferi. Sé engiferið lífrænt ræktað er í góðu lagi (og jafnvel betra) að láta flusið fylgja með. Sé það aftur á móti ekki lífrænt ræktað er vissara að afhýða það.

Sækið ykkur uþb eins líters krukku og setjið rifið engifer í hana. Bætið saman við þetta jafn mikið (2-3 msk) af sykri. Mér finnst betra að nota hrásykur. Bætið loks við ca 2 bollum af vatni.

Lokið krukkunni lauslega, helst með einhverjum klút eða álíka yfir opinu og látið standa á eldhúsbekknum. Næstu daga þarf svo að næra móðirina einu sinni á dag með 1msk af fersku rifnu engifer og 1msk af sykri. Eftir uþb viku ætti að vera komið líf í móðirina en það sést greinilega á því að loftbólur eru farnar að myndast og það “bubblar” í leginum.

Til hamingju, þú hefur búið til þína eigin engifermóðir!

Comments are closed.