Gerjuð Hot Sauce

Ég rækta talsvert mikið af chilli og nota í ýmsa hluti í matargerðinni. Það sem er gott við að rækta sjálfur chilli er það að maður getur ræktað tegundir sem ekki er hægt að fá hérna heima. Það fer ekki mikið fyrir ræktuninni en auðvitað helst uppskeran í hendur við magn chilli planta og hversu vel maður hugsar um þær. 

Í þessari færslu uppskrar ég Hungarian Hot Wax pipar og gerði úr honum gerjaða “hot sauce” en hér er hægt að nota hvaða tegund af chilli sem er ásamt því að það er í góðu lagi að blanda saman tegundum. Gerjaðar sterkar sósur eru allt öðruvísi en ferskar sósur og hægt er að stýra bragðinu með því að gerja þær mis lengi. Þessi uppskrift er afskaplega einföld, eins og svo margar aðrar uppskriftir þar sem gerjun kemur við sögu en þær taka tíma. Mér finnst gott að gerja í 4 vikur áður en ég byrja að nota sósuna en það má auðvitað smakka eftir 2 ef maður bara getur ekki beðið!

Það eru til tvær aðferðir fyrir þetta; þurrsöltun eða pækilsöltun. Hér notum við þurrsöltunina!

Hráefni

  • Ferskur chilli pipar
  • Salt (2% af chilli magni)

Aðferð

Skerið stilkana af og skellið öllu í matvinnsluvél. Hægt er að fjarlægja hluta af fræjum úr ef þið viljið ekki hafa sósuna of sterka.

Hakkið piparinn niður mjög smátt.

Nú þarf að mæla út saltmagnið. Ég nota alltaf 2% saltmagn af heildar magni af pipar.

Í þetta sinn var ég með um 300gr af pipar þannig að ég set 300 * 0.02 = 6gr af salti.

Saltið vigta ég nákvæmlega og hræri saman við smátt hakkaðan piparinn. 

Næst er komið að því að setja þetta í krukku. Krukkur og lok þarf að sótthreinsa t.d. með því að sjóða, hita í ofni eða nota StarSan. Ég notaði StarSan og baðaði krukkuna og lok upp úr því.

Ég notaði líka vatnslás á krukkulokið. Þegar piparinn byrjar að gerjast mun koltvísýringur taka að myndast í krukkunni. Vatnslásinn passar að hleypa gasinu út og á sama tíma hleypir hann engu inn í krukkuna. Það er algjör óþarfi að nota svona vatnslás því hægt er að lausskrúfa lokið á þannig að gasið sleppi út eða skrúfa lokið fast og passa að hleypa loftinu út sjálfur einu sinni til tvisvar á dag.

Hrærið vel í maukinu, skellið öllusaman í krukkuna og setjið lokið á. 

Leyfið þessu nú að standa við stofuhita í amk 2 vikur en helst í 4 vikur. Þá ætti sterkjan að hafa mildast og sósan búin að þróa með sér flókið og ljúffengt bragð.

Nú er hægt að setja sósuna aftur í matvinnsluvélina eða hafa hana bara eins og hún er og setja á flösku!


Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.