Gamla pottjárnspannan

Eitt af mínum uppáhalds tólum í eldhúsinu eru pottjárns (e. cast iron) pottar og pönnur. Pottjárn hefur frábæra hitaleiðni sem veldur því að hitinn dreifist mjög vel um allt áhaldið og það heldur hita mjög vel og lengi. Annar kostur við pönnur og potta úr pottjárni er sá að þeim mun meira sem það er notað, því betra verður það! Sé vel hugsað um þessi áhöld geta þau enst þér út ævina og mörg dæmi eru um það að pottar og pönnur úr pottjárni ganga kynslóða á milli.

Eftir því sem maður notar pottjárnspönnur meira, þeim mun meiri húð myndast utan á hana sem veldur því að matur festist ekki við botninn. Mikilvægt er þó að hugsa mjög vel um þessi áhöld og þrífa þau aldrei með sápu, nota bara plastbursta eða grófan svamp til þess að vaska upp og alls ekki skilja vatn eftir á pönnunni því annars ryðgar hún!

Annað slagið getur svo verið gott að þrífa pönnuna vel og seasona hana. Ég útskýri hvað það er hérna rétt fyrir neðan.

Allavega…

Ég fór í Góða hirðirinn fyrir stuttu síðan og rakst þar á gamla pottjárnspönnu á 1450.- kr. Ég gat ekki annað en slegið til og við nánari skoðun fann ég út að hún er framleidd af Lodge Manufacturing co. á bilinu 1960-1987. Þar sem hún var mjög illa farin og ég hafði í raun ekki hugmynd um notkun á henni ákvað ég að taka hana í gegn og koma henni í þannig ástand að hún væri eins og þegar hún kom glæný úr verksmiðjunni.

Út með það gamla

Pannan var bæði mjög skítug, hafði greinilega verið notuð mikið og var farin að ryðga. Ég ákvað því að best væri að pússa alveg svörtu húðina af henni og season-a hana svo aftur.

Ég fór því og náði mér í stálull, bæði mjög grófa og svo venjulega stálull með sápu. Ég hugsaði með mér að gott plan væri að nota það til þess að skrúbba pönnuna og ná þannig allri húðinni af… ó hvað ég hafði rangt fyrir mér!

Það hefði tekið mig marga daga að komast í gegnum húðina með þessari aðferð. Ég gerði mér því ferð daginn eftir í Verkfæralagerinn og festi kaup á nettum bursta sem ég gat sett í borvélina. Ég þorði ekki að nota stálbursta svo ég keypti rauðann bursta sem er með einhverskonar plast/fíber þráðum og er ekki eins grófur og stálbursti. Það svínvirkaði og tók mig ekki nema um 25 mínútur að pússa alla pönnuna!

Nú var pannan í því ástandi sem hún var í verksmiðjunni áður en hún fór í “húðun” (e.season)

Inn með það nýja

Þegar hér er komið við sögu er málmurinn algjörlega hrár. Hérna skrúbbaði ég hana vel með stálull og sápu og þurrkaði svo algjörlega. Minnsti vatnsdropi á viðkvæmum málminum hefði búið til ryðblett á pönnunni og það viljum við ekki. Nú var komið að því sem á ensku er kallað seasoning.

Seasoning gengur út á það að bera þunnt lag af olíu utan á alla pönnuna, líka botn og haldfang, og baka í ofni. Eftir að olían er komin á er pannan sett á hvolf inn í ofn, ofninn settur á 200°C og pannan bökuð í ca 60 mínútur. Þetta er svo endurtekið helst ekki sjaldnar en 5 sinnum.

Við venjulegar kringumstæður er nóg að seasona einu sinni. Ástæðan fyrir því að ég geri þetta 5 sinnum er sú að ég tók alla húð í burtu sem fyrir var og fór alveg niður í beran málminn.

Að lokum

Eftir að hafa bakað pönnuna 5 sinnum leit hún svona út

Pannan er komin með góða húð og er tilbúin til notkunnar. Húðin verður svo bara betri eftir því sem pannan er notuð meira! 

Nú hef ég eignast frábæra pottjárnspönnu sem mun endast mér út ævina, fyrir 1.450.- kr !

Aðeins um viðhaldið

Þegar verið er að nota áhöld úr pottjárni er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi hluti í huga. Sé farið eftir þessu er líklegt að pannan eða potturinn eigi eftir að endast ykkur út ævina og jafnvel fram í næstu kynslóðir af fjölskyldukokkum!

 

 • Þvoið pönnuna eftir hvert skipti með heitu vatni
 • Notið grófan svamp eða uppþvottabusta úr plasti
 • Seasonið pönnuna öðru hverju
 • Þurrkið pönnuna algjörlega eftir hvern þvott
 • Notið aldrei sápu eða stálull þegar þið þrífið pönnuna því þá eyðið þið húðinni á henni!
 • Pottjárn getur verið viðkvæmt fyrir miklum hitasveiflum og því er alls ekki mælt með því að setja kalda pönnu inn í heitann ofn!

Season

Þegar talað er um að seasona-a pönnur þá er þunnu lagi af olíu borið á pönnuna og hún bökuð í ofni.

 1. Skolið pönnuna upp úr heitu vatni og þurrkið mjög vel
 2. Berið þunnu lagi af olíu á alla pönnuna, líka á haldföng og botn. Notið olíu sem brennur við hátt hitastig
 3. Setjið pönnuna á hvolf ofan á ofngrind og inn í ofn
 4. Kveikið á ofni og stillið á undir/yfir hita, 200°C. Látið pönnuna inn í ofninn áður en þið kveikið þannig að hún fái að hitna með ofninum.
 5. Bakið pönnuna í um 60 mínútur
 6. Slökkvið á ofninum og leyfið pönnunni að kólna alveg inni í ofninumViltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.