Varúð! Þessi er sterk!
Geggjuð sósa sem passar með nánast hverju sem er. Mér finnst svakalega gott að grilla chilli piparinn því þá fær maður smá svona kolabragð í sósuna sem er alveg geggjað. Ef þið viljið ekki of mikinn hita er hægt að minka chillimagnið eða bæta við meiri sýrðum rjóma.

Hráefni
- chilli (magn fer eftir smekk)
- 50/50 af sýrðum rjóma og grískri jógúrt (magn eftir smekk)
- Safi úr einu lime
- Ferskar kryddjurtir. Ég notaði ca eitt blandað búnt af myntu, steinselju og kóríander.
- 1-2 tómatar
- 2-3 hvítlauksgeirar
- Sjávarsalt
- ca 30ml ólífuolía
Aðferð
Pennslið chilli piparinn með olíu og saltið. Grillið á funheitu kolagrilli þar til hann er orðinn mjúkur og svolítið brunninn. Setjið svo allt hráefnið nema sýrða rjómann og grísku jógúrtina í matvinnsluvél og vinnið vel saman. Bætið svo við sýrðum rjóma og grískri júgúrt í jöfnum hlutföllum eftir smekk. Því meira sem þið setjið út í því mildari verður sósan. Smakkið til með salti.
Hér er líka um að gera að prufa sig áfram. Í stað þess að nota chilli pipar er hægt að nota grillaða papriku, lauk, sæta kartöflu eða rauðrófur svo eitthvað sé nefnt!
