Brenndir endar

Úr svínasíðu, einum ódýrasta kjetbita sem hægt er að kaupa, má gera Brennda enda (e. burnt ends). Ómótstæðilegir reyktir, sætir og safaríkir bitar sem slá í gegn í grillveislunni. Þetta er eitthvað sem allir ættu að prufa að gera að minsta kosti einu sinni!

Djúsí!

Hráefni

  • 2.5 kg svínasíða
  • Smjör
  • Flaska af góðri bbq sósu
  • Hunang
  • Gott grillkrydd
  • Viðarkubbar til reykingar

Aðferð

Við byrjum á svínasíðunni. Hægt er að spara sér sporin hérna með því að kaupa svínasíðu án beins og puru. Ég hinsvegar fékk svínasíðu með beini og puru í Fjarðarkaup á mjög góðu verði og snyrti hana til sjálfur.

Snúið purunni niður. Skerið meðfram rifbeinum með beittum hníf. Snúið svo síðunni við og skerið puruna af. Passið að taka ekki of mikið af fitunni sjálfri í burtu.

 

Skerið því næst síðuna niður í 5x5cm kubba. Setjið kubbana í skál og kryddið vel með góðri bbq kryddblöndu. Ég notaði mína uppáhalds kryddblöndu sem ég blanda sjálfur (sjá link hér að neðan).

Leyfið kubbunum að hvíla í lokuðu íláti í ísskáp í allt að sólarhring.

Kryddblandan

Þessi kryddblanda er geggjuð. Reykt og sæt og hentar fullkomlega með brenndum endum.

Reykingin

Því næst er komið að því að reykja kubbana. Ég nota blöndu af eplavið (ca 70%) og Hickory (ca 30%). Hægt er að nota hvaða blöndu sem er af við en ég mæli með að hafa allavega 60-70% blöndunnar í “léttum” við, svo sem Eplavið, Kirsuberjavið eða Ferskju.

Raðið kubbunum á reikgrindur eða beint á grillgrind. Ég nota sérstakan reykofn í þetta en það er leikur einn að gera þetta á venjulega kola eða gasgrilli. Þá þarf aðeins að passa að kubbarnir séu ekki beint yfir hitagjafanum heldur eldist þeir við óbeinan hita.

Reykið kubbana við 120°C í þrjár klukkustundir. Það er mjög mikilvægt að hitinn fari alls ekki yfir 120°C vegna þess að þá er hætta á því að kubbarnir þorni upp. Við viljum elda þá við lágan hita í langan tíma.

Að lokum

Eftir að kubbarnir eru komnir úr reyk eru þeir settir í álbakka. Hellið vel af uppáhalds bbq sósunni ykkar yfir, góðum slurk af hunangi og svolítið smjör. Lokið álbakkanum og setjið aftur á grillið við 120°C í um 90 mínútur. Takið þá lokið af álbakkanum og eldið áfram í um 15 mínútur til þess að þykkja upp sósuna.

 

Veltið kubbunum vel upp úr sósunni og berið fram. 

Fullkomið!


Viltu meira?

Hér eru fleiri spennandi uppskriftir

Comments are closed.